Nýr og betri heimur er möguleiki ef þú vilt það

Ræðan frá Hlöðveri meðlim IWW, lesin á fyrsta maí 2014:

Bræður og systur á vinnumarkaði.

Núna er kominn tími á byltingu allra stétta gegn ríkinu og kapítalismanum. Árangur í baráttu verkafólks mun einingis nást nema allar verkastéttir standa saman sem eitt afl. Við erum öll í sömu súpunni, við erum öll í sömu baráttunni, við eigum öll sameiginlega fjandmenn.

Hagsmunir eins verkamanns eru hagsmunir allra verkamanna. Hér með ætlum við að hætta að líta á okkar eigin kjarabaráttu sem einangraða baráttu, heldur er okkar eigin barátta, barátta allra verkamanna! Í dag ætlum við einnig að hætta að hugsa um”en ég er svo duglegur en þeir svo latir…”, blablabla ég hef heyrt þetta allt og þetta er nákvæmlega sú orðræða sem valdastéttinn vill að fólk noti. Ef að verkafólk er sundrað, eins og það er í dag, munum við öll tapa, líka sá sem er duglegur. Það sem er að gerast og hefur verið að gerast síðustu áratugi í verkalýðsmálum er að kjörin og réttur eru að fjara burt hægt og rólega, svo hægt að við varla tökum eftir því, en ef við horfum aftur tilbaka þá sjáum við þær afturfarir sem hafa orðið á kjörum verkafólks! Það er áhugarvert að sjá kröfurnar sem verkamenn hrópuðu um allann heim í upphafi 20. aldar, 8 klst vinnudagur!

Í meira en 100 ár hefur verkafólk barist fyrir 8klst vinnudegi en sú krafa hefur ekki ennþá náðst. Sólarhringurin ætti að deilast þannig að við eigum að geta unnið í 8klst, verið frjáls í 8 klukkustundir og sofið í 8 klst. Vissulega stendur einhverstaðar að dagvinnukaup sé 8klst og eftir það erum við komin í yfirvinnutaxta. En þetta er einungis blek á blaði skrifræðisins og hefur enga raunverulega merkingu fyrir verkamann sem þarf að eiga þak yfir höfuðið, salt í grautinn og plús að geta keypt nokkrar rósir til að hafa það gott. Ef við verðum að vinna meira en 8klst til að sinna öllum þörfum okkar þá hefur meira en 100ára gömul krafa um 8tíma vinnudag ekki náðst.

Að borga verkamönnum hærri kaup er skelfileg kvöl fyrir auðvaldsstéttina og þeir eru duglegir að grenja í fjölmiðlum þegar þeir eiga að opna budduna. Ég tek það skýrt fram að ég vorkenni yfirmönnum, fjármagnseigindum og íslenska ríkinu ekki neitt, þinn dauði er þeirra brauð, þinn þrældómur er þeirra gullkista. Þetta segi ég ekki af persónulegu hatri við valdastéttina, heldur segja tölurnar sína sögu, peningurinn er stíflaður einhverstaðar fyrir ofan okkur og klassíska brauðmolakenningin er í eintóm þvæla sem stenst ekki raunveruleikann.

Bræður og systur, ég er ekki að segja að lausnin sé að heimta enn og aftur 8klst fullborgaðann vinnudag eða suða um meiri pening af auðvaldinu. Það hefur verið reynt í meira en 100 ár og sú aðferð skilar engu til verkastéttarinnar og skilar öllu í vasa valdastéttarinnar. Ríkari verða ríkari, fátækir verða fátækari.

Heldur mæli ég frekar með því að við stöndum öll saman. Af því við verkafólk, sköpuðum samfélagið, við höfum VALDIÐ til að skapa nýja menningu og nýjann heim. Hver einasta gata sem þú sérð var lögð af verkamönnum, hvert einasta hús sem þú sérð var byggt af verkamönnum, hver einasti kaffibolli á kaffihúsi var lagaður af verkamanni, allur matur í verslunum var búinn til af verkamönnum, hver einasta kennslustund í grunnskólum er kenndur af verkamanni.

Nýr og betri heimur er möguleiki ef þú vilt það. Þá er ég ekki að tala um 8klst vinnudag, árið 2014 ætti enginn að þurfa að vinna 8klst á dag og það er hreint skelfilegt að flestir á vinnumarkaðnum vinna miklu lengur en 8klst á dag. Ég er að tala um heim þar sem við vinnum 4klst eða styttra, ég er að tala um heim þar sem enginn er yfirmaður og starfsfólk fær vald til að taka stórar ákvarðannir byggðar á lýðræði allra en ekki einræði eins yfirmanns.

Ég vil heim þar sem þarfir samfélagsins verður það mikilvægasta sem verkamenn vinna fyrir en ekki gróðarmöguleikar örfárra kapitalista og fjármagnseigenda. Áður en þú kallar mig útópískann, horfðu þá á makraðskapitalismann sem við lifum í dag, ef þú trúir því að þetta sé raunhæft þá ertu á sama tíma að trúa því hagkerfi geti stækkað endalaust, að endalaust getum við notað meira af auðlindum jarðarinnar í dag en í gær, sem er forsenda velmegunnar í kapitalisma. Ef þú trúir því að þetta sé raunhæft, þá ertu annaðhvort veruleikafirrtur auðkýfingur, stjórnmálamaður eða siðblindur kapitalisti.

Ég vil heim þar sem verkamenn eru frjálsir og geta lifað hamingjusömu lífi í sátt við samfélagið og umhverfið. Við verðum einnig að leita lausna á því stéttarstríði sem dynur yfir okkur. Auðvaldsstéttin er í stríði við fátæku, nú er kominn tími til að verjast, það er ekki við láglaunastéttin sem að hófu þetta stríð, það var hafið löngu áður en þú fæddist. Við skulum ekki leita lausna frá þeim sömu og kúga okkur, þá er ég að tala um ríkisstjórnina. Megi pólitíkusar og stjórnmálamenn rotna í helvíti af því þeir hafa haft valdið til að stíga inní það óréttlæti sem fyrirfinnst á vinnumarkaðnum, og þeir hafa brugðist þessu valdi alveg frá upphafi. Við getum ekki skammað stjórnmálamenn fyrir að vera valdagráðugir og eiginhagsmunasamir þegar þeir fá völd, af því þessi hegðun er í eðli þeirra sem fá völd. Rétt eins getum við ekki skammað kapitalista fyrir að vera gráðugir og kúgandi gegn verkafólki, af því í kapitalisma er þetta sem að leikurinn snýst um og lausnin verður því aðeins að kremja kapitalisma sem kerfi.

Leitum heldur lausna með því að tala um vandann, leitum lausna með því að opna eyrun fyrir óréttlæti annara verkamanna, leitum lausna með því að lesa bækur skrifaðar af róttækum pennum. En ég veit það fullvel að eftir 10 klst vinnudag, útkeyrður, svangur og glaður að vera loksins buinn að vinna. Að eftir slík erfiði sem vinnan er og sérstaklega hjá dugnaðarfólki, að fara á verkalýðsfundi eða lesa róttækar bækur og finna leiðir til að skapa nýjann og betri heim verður þrautinni þyngri en að setjast uppí sófa og horfa á skemmtilega sjónvarpsþætti eða örvandi fréttir. Þegar vinnan er svo leiðinleg, einangrandi og óspennandi verður að virk þáttaka í baráttumálum erfið og ómöguleiki þeirra sem halda áfram að vinna eftir vinnuna í erfiðu heimilishaldi.

Þessvegna ávarpa ég ykkur kæru bræður og systur, ef þú hefur minnsta möguleika á að vera þáttakandi í að byggja upp nýtt og sanngjarnara samfélag þá hvet ég þig til að verja tíma þínum í baráttumál verkafólks. Og hafðu á bakvið eyrað alla þá útlendinga sem vinna hérna þrælavinnu og hafa enga rödd í kerfinu eða einstæðu móðurina sem þarf að vinna 2 störf til að hafa ofan í sig og börnin sín eða þjóninn á veitingastað sem vinnur á ólöglegu jafnaðarkaupi án þess að hafa nóg til þess að borga leigu af ósamþykktri leiguíbúð sýkta af silfurskottum og myglusveppum.

Taktu þátt í grasrótarstarfsemi og aktívisma, lestu bækur sem skipta máli, talaðu um vandamálin við samstarfsfélaga ykkar og setjið ykkur í stellingar gegn yfirvaldinu og kallið þessa baráttu réttu nafni; sjálfsvörn.

Því hver veit nema óréttlætið muni ná yfir þig, makann þinn, börnin þín eða fjölskyldumeðlim. Tap fyrir einn verkamann er tap fyrir alla verkamenn. Við erum ekki frjáls fyrr en að við erum öll jafnfrjálst, hver einn og einasti. Við erum öll saman sömu súpunni og verðum að horfa á hvort annað ekki útfrá þjóðerni, húðlit, kyn eða kynhneigð, við verðum að horfa á hvort annað sem stétt verkamanna. Brjótum upp forréttindi í öllum þeim myndum sem þau kunna að birtast okkur, til að geta staðið samfætis þurfum við að vera jöfn og virða hvort annað sem jafningja. Allar verkastéttir eru jafnar og öll vinna er jöfn, við erum ekki í keppni gegn hvort öðru heldur eigum við að vera í keppni um að auka lífsgæðin okkar allra, keppni þar sem við erum öll í sama liðinu og sigur einstaklingsins verður því sigur samfélagsins. Tortímum kapitalisma og ríkisvaldi áður en það tortímir okkur að innan sem og utan.

Ég trúi á jákvæða byltingu, ég trúi á félagslega byltingu, ég trúi á alsherjar verkfall alls verka fólk, ég trúi á einstaklingsfrelsið, ég trúi á samfélagsfrelsið, ég trúi á að hið góða mun að lokum sigra og umframallt, ég hef trú á ykkur til að stjórna ykkur sjálf og ég trúi á ykkur að vera hæf og jafnvel mun betri en valdamenn til að stjórna samfélaginu og vinnustaðnum og móta því að ykkar þörfum. Ég hvet ykkur líkt og ég geri að berjast fyrir útbreiðslu á anarkískum kommúnisma og bendi ég á grasrótarhópinn, UBA eða Uppræting Bandalag Anarkista sem er anarkísk samtök á Íslandi sem mun á næstunni verða meðlimur í International of Anarchist Federations. Fólkið sem sækir fundina eru aktívistar af ýmsum þjóðernum sem eru búnir að gefast upp á svokallaðari vinstri pólitík og sjá þá brýnu þörf á róttækari og frjálsari sósíalisma en þekkist á Íslandi í dag.

Einnig hvet ég ykkur að þátt í róttæka verkalýðsfélaginu IWW sem er stækkandi og mjög blandað verkalýðsfélag og er komið til að vera á Íslandi. IWW er alvöru verkalýðsfélag sem byggir á lýðræði og jöfnuð. ASI, VR, Efling og fleiri verkalýðsfélög eru rotnuð inn að beini. Hvort sem þið hafið áhuga á að koma að taka þátt í IWW eða ekki þá verðum við að gera okkur ljóst að íhaldsöm stéttarbarátta er töpuð stéttarbarátta.